Áskoranir 2017-2018

Í september ætlum við að keyra í gang eina magnaða áskorun sem verður í gangi hjá okkur Í HEILT ÁR!

Fyrirkomulagið er á þann hátt að í hverjum mánuði næsta árið verðum við með skemmtilega áskorun sem öllum okkar meðlimum er boðið að mæta og taka þátt í. Allir þeir sem mæta í áskorun fá nafnið sitt upp á áskorunartöflu á veggnum okkar og í sumum áskorunum er einnig hægt að vinna til verðlauna. Þegar þú klárar þína fyrstu áskorun ferðu á fyrstu töfluna, þegar þú klárar þína aðra áskorun færist nafnið þitt yfir á töflu númer tvö og svo koll af kolli. Það eru 8 númeraðar töflur og þú hefur 12 áskoranir/mánuði til að komast á leiðarenda – þú þarft því ekki að mæta í allar þó að það sé auðvitað ekki verra!

Nöfn þeirra sem komast á leiðarenda verða saumuð í fána fyrir árganginn 2017-2018 og munu hanga uppi á vegg í salnum um ókomna tíð. Þú hefur því möguleika á að skrá nafn þitt í BC-söguna!

Áskoranirnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Sumar reynast þér eflaust erfiðari en aðrar en að okkar mati eru þær sanngjarnar fyrir hópinn og ögra ykkur vonandi. Ef einhver áskorun er þess eðlis að þú treystir þér ekki í hana eða kemst hreinlega ekki þegar hún er haldin, þá hefurðu fjóra aukamánuði upp á að hlaupa til að ná þessum 8 áskorunum sem þarf að lágmarki.

Það verður ekki hægt að koma og taka áskoranir á neinum öðrum tíma heldur en þeim sem gefinn er upp fyrir hverja þeirra en við getum sagt það strax að áskoranirnar verða ávallt þriðja laugardag hvers mánaðar.

Áskoranirnar verða birtar með 2-3 vikna fyrirvara svo það er hægt að prufa þær (flestar) fyrirfram en ekki æfa þær of stíft enda ekki markmiðið með þeim. Markmiðið er að hvetja okkar fólk til að prófa sem fjölbreyttasta hluti og að halda sér í góðu líkamlegu standi allt árið um kring.

 

ÁSKORUN #1 – NOCCO: PUMP & RUN

Hvenær: fyrsta áskorunin fer fram laugardaginn 16.september.
> Stelpurnar byrja á bekkpressunni kl.10:15 og eru ræstar af stað í hlaupið kl.11:00
> Strákarnir byrja í bekkpressuna kl.11:00 og eru ræstir af stað í hlaupið kl.11:45.
Hvernig: fyrst klára allir „Pump-hlutinn“og þá eru allir ræstir af stað í „Run-hlutann“

PUMP

Max endurtekningar í bekkpressu. Hver aðili fær eina tilraun til að lyfta þyngdinni eins oft og hann getur en má að hámarki lyfta stönginni 30 sinnum:

– Strákar sem lyfta eigin líkamsþyngd fá 30 sek af hlaupatímanum sínum fyrir hverja lyftu sem þeir ná.
– Strákar sem lyfta 90% af eigin líkamsþyngd fá 20 sek af hlaupatímanum sínum fyrir hverja lyftu sem þeir ná.
– Strákar sem lyfta 80% af eigin líkamsþyngd fá 10 sek af hlaupatímanum sínum fyrir hverja lyftu sem þeir ná.
– Stelpur sem lyfta 70% af eigin líkamsþyngd fá 30 sek af hlaupatímanum sínum fyrir hverja lyftu sem þær ná.
– Stelpur sem lyfta 60% af eigin líkamsþyngd fá 20 sek af hlaupatímanum sínum fyrir hverja lyftu sem þær ná.
– Stelpur sem lyfta 50% af eigin líkamsþyngd fá 10 sek af hlaupatímanum sínum fyrir hverja lyftu sem þær ná.

RUN

5km hlaup á tíma.

Hraðasti hlaupatími að frádregnum þeim tíma sem bekkpressan skilaði til frádráttar, er lokatíminn þinn og skorið þitt í áskoruninni. Sem dæmi: ef einstaklingur hleypur á 25 mínútum og náði 20 lyftum með mestu þyngdinni, þá fær hann 10 mínútur dregnar frá hlaupatímanum sínum og endar því með hlaupatíma upp á 15 mínútur.
Veitt verða NOCCO-verðlaun fyrir hraðasta tímann í karla- og kvennaflokki sem og NOCCO-útdráttarverðlaun sem allir þátttakendur eiga möguleika á að vinna. Sigurtími karla- og kvenna verða einu tímarnir sem verða gefnir upp en hver og einn getur hæglega reiknað út sinn lokatíma ef áhugi er fyrir hendi. Mundu, að þú þarft eingöngu að taka þátt og klára áskorunina til að komast á töfluna.
Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050