Brekkusöngur

Kosturinn við að búa á Íslandi að það eru brekkur nánast hvert sem litið. Hvort sem þú ætlar að verja verslunarmannahelginni á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, í Vestmannaeyjum eða hvaða öðrum stað sem er – þá erum við með þessa æfingu tilbúna fyrir þig sem við köllum „BREKKUSÖNGINN“ og er því tilvalið að taka hana á sunnudegi verslunarmannahelgarinnar.

Skref 1: finndu þér góða brekku. Þetta er t.d. góð brekka -> brekka

Skref 2: hitaðu upp í 5 mínútur með því að skokka hana upp á topp, klára 1 súperfrosk, skokka varlega niður, klára 2 súperfroska, skokka aftur upp hana, klára 3 súperfroska o.s.frv. þar til 5 mínútur eru liðnar. Ef brekkan er löng þá endarðu á því að gera færri súperfroska heldur en ef hún er stutt. Pústaðu síðan aðeins fyrir næsta skref.

Skref 3: taktu einn brekkusprett og mældu tímann á þér upp á topp. Röltu síðan bara rólega niður á meðan þú reiknar út hvað 100 deilt með tölunni þinni er mikið. Dæmi: þú varst í 12 sekúndur að hlaupa upp á toppinn. Þá eru talan þín 100/12=8,33. Við námundum það niður í 8 og þá eru það ferðirnar af brekkusprettum sem þú skuldar til að klára æfinguna. Jebb, smá hugarleikfimi í leiðinni.

Skref 4: taktu tímann á þér í hverri einustu ferð sem eftir er. Til að ferðin þín telji þá máttu ekki vera lengur með hana en upprunalega tímann þinn + 20%. Ef við förum aftur í sama dæmi og áðan þá máttu ekki hlaupa hægar en 12 sek x 1,2 = 14,4 sekúndur. Ef þú ert lengur en það þá skuldarðu 10 súperfroska í refsingu fyrir þá ferð. Athugaðu að við erum bara að mæla tímann upp á topp og svo máttu rölta rólega niður og hvíla eins lengi og þú þarft. Ertu klár í þetta?

Skref 5: endaðu uppi á toppnum eftir síðustu ferðina og syngdu uppáhalds þjóðhátíðarlagið þitt. Vonandi heyrir enginn í þér en þá er málið dautt og æfingin búin!

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050