Fita

Fita er þriðja næringarefnið ásamt kolvetnum og prótínum en jafnframt það orkumesta – í hverju grammi af fitu eru 9 hitaeiningar. Fita er orð sem nær yfir lífræn efnasambönd sem eiga það sameiginlegt að leysast illa upp í vatni. Fita er jafnframt orkugjafi, útvegar líkamanum fituleysanleg vítamín, veitir lífsnauðsynlegar fitusýrur, verndar líffæri gegn miklum hitasveiflum og síðast en ekki síst gefur fita bragð.

Líkaminn geymir mest magn umframorku sinnar í formi fitu. Fita er geymd í svokölluðum fitufrumum sem mynda fituvef víða í líkamanum. Fituvefur er oftast 15-30% af líkamsþyngd okkar. Konur geyma meira af fitu en karlar, sérstaklega í brjóstum og á mjöðmum. Fituprósenta kvenna er því oftast hærri en karla.


 

Ólíkar fitusýrur

Meginundireining fitu kallast fitusýra. Til eru þrjár tegundir af fitusýrum: mettaðar, einómettaðar og fjölómettaðar. Engin matvæli innihalda eingöngu mettaðar fitusýrur eða ómettaðar fitusýrur, heldur er ávallt blöndu af ólíkum fitusýrum. Matvæli sem innihalda mikið af ómettuðum fitusýrum eru líklegri til að vera fljótandi við stofuhita en þau matvæli sem innihalda mikið af mettuðum fitusýrum eru líklegri til að vera í föstu formi við stofuhita.

Líkaminn getur sjálfur framleitt flestar fitusýrur sem hann þarf. Sumar fitusýrur þarf hann hins vegar að fá úr fæðunni og eru dæmi um það omega-3 og omega-6. Fitusýrurnar gegna ólíkum hlutverkum í starfsemi líkamans og því skiptir máli að hafa gott jafnvægi milli þeirra. Vegna framleiðsluaðferða matvæla hafa flestir í hinum vestrænum heimi mun hærra hlutfall af omega-6 fitusýrum á móti omega-3 fitusýrum. Við getum með réttri neyslu stuðlað að meira jafnvægi með því að og viljum við leitast við að munurinn þar á milli sé sem minnstur þar sem fitusýrurnar keppa um ákveðin ensím í líkamanum til að sinna sínu hlutverki. Við getum aukið inntöku omega-3 fitusýra m.a. með því að neyta meiri fisks eða tekið inn fiskiolíur m.a. í töfluformi eða tekið gamla góða lýsið okkar. Dýr sem eru fóðruð á grasi frekar en korni hafa einnig hærra hlutfall omega-3 fitusýra og hjálpa okkur því að viðhalda góðu jafnvægi.

Transfita er önnur tegund fitu sem við ættum að forðast sem mest. Hún verður til við herðingu á ómettuðum fitsýrum, oftast jurtaolíum. Þessi efnafræðilega breyting eykur geymsluþol matvörunnar. Transfitur finnast í miklum mæli í þeim matvælum sem við ættum flest að tengja við óhollustu s.s. í djúpsteiktum mat, smjörlíki, sælgæti, snakki, kexi o.fl. Transfitur hafa verið tengdar við marga algenga lífsstílssjúkdóma s.s. hjarta- og æðasjúkdóma.


 

Fæðutegundir

 

Fitu er víða að finna í fæðunni okkar. Hún er oftast fjölbreytt og af mörgum gerðum. Við ættum að einblína meira á fæðutegundir sem hafa hærra hlutfall ein- og fjölómettaðra fitusýra og forðast transfitur.

Ágætt viðmið er að 20-25% af heildarinntöku hitaeininga okkar komi frá fitu. Fituríkar fæðutegundir sem hjálpa okkur að ná því hlutfalli eru t.d. olíur, feitur fiskur, avókadó, magurt kjöt, egg, og hnetur.

 

 

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050