Jólaáskorun (#4)

santa-clipart-workout-2Það er komið að hinni ÁRLEGU JÓLAÁSKORUN sem er jafnframt sú fjórða í áskorunarárinu okkar. Í fyrra mættu 200 manns til okkar, tóku allhressilega á því, „leyfðu“ þjálfurunum sínum að taka yfir 5.000 súperfroska, fengu sér kökur og heitt kakó – almennt frábær upplifun og góð stemning.

Í ár ætlum við heldur betur að blása í lúðrana og gera enn betur! Áskorunin verður algjör VEISLA og verður boðið upp á sannkallað HLAÐBORÐ í formi æfinga. Eins og allir vita er sælla að gefa en þiggja og því fáið þið líka að gera GÓÐVERK í sönnum anda jólanna.

Taktu daginn strax frá því þú ætlar ekki að missa af þessu!!!

 

Áskorunin sjálf

Áskorunin að þessu sinni er á þann háttinn að þú ætlar að takast á við Jóladagatal BC. Ólíkt því sem við lærðum sem börn um að það mætti bara opna einn glugga á dag, þá ætlum við að opna alla 24 gluggana og takast á við æfingaverkefnin sem er að finna í þeim. Þau verða jafn fjölbreytt og þau eru mörg þannig að þú færð að upplifa skemmtilega og góða áskorun.

Það verður hægt að mæta og byrja áskorunina á þeim tíma sem þér hentar frá kl.09:00 um morguninn en henni verður að vera lokið kl.13:00. Gerðu ráð fyrir að einhverjir gluggar innihaldi verkefni sem þarf að klára úti og hafðu því með þér viðeigandi fatnað til að þú getir einnig kíkt út.

Við verðum svo með heitt kakó, súkkulaðikökur, jólatónlist o.fl. til að koma þér í algeran jólafíling!

 

Jólagjafasöfnun

Okkur langar að láta gott af okkur leiða og aðstoða einhverja af þeim sem þurfa á því að halda um jólin. Til að safna pening fyrir jólagjafakaupum þá ætlum við að bjóða fólki að styrkja málstaðinn með því að „kaupa“ gluggana í dagatalinu. 1. des kostar 1.000kr, 2. des kostar 2.000kr og svo koll af kolli en 24.desember kostar 24.000kr að lágmarki (auðvitað má leggja meira til en sem nemur upphæðinni).

Bæði einstaklingar og fyrirtæki geta keypt gluggana og við munum láta gluggann innihalda gott tribute til heiðurs þeim sem keypti hann. Það eina sem þú þarft að gera til að tryggja þér einn af þessum 24 gluggum er að senda okkur tölvupóst, taka fram hvaða dag þú óskar eftir og hvert framlagið er fyrir hann. Við sjáum svo um það að kaupa gjafabréf í Hagkaup og koma þeim til einhverra sem þurfa á því að halda. Hagkaup ætlar svo að bæta um betur og hækka upphæðina svo við getum aðstoðað fleiri og færum við þeim bestu þakkir fyrir að veita okkur liðsstyrk í þessu.

Þeir sem kaupa ekki glugga geta að sjálfsögðu líka styrkt málefnið en eins og við vitum gerir margt smátt eitt stórt.

 

Vonandi sérðu þér fært að taka þátt í þessari gleði með okkur og fá í senn að gefa og þiggja!

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050