Laugavegurinn

Í sumar, 23.-25. júní, ætlum við að leiða hóp Boot Campara og vandamanna yfir Laugaveginn. Fyrir þá sem þekkja ekki leiðina þá er hún 55km að lengd og liggur frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk. Leiðin sjálf er gríðarlega falleg og þú færð að upplifa nánast allt sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða: snævi þakta tinda, hitauppsprettur, svarta sanda, græna hóla og allt þar á milli.

Við munum leggja af stað frá höfuðborginni eftir vinnu á föstudegi og leggja af stað í gönguna sjálfa á miðnætti. Það verður því ekki sála á vappi nema við og kyrrðin sem fylgir sumarnóttum eitthvað sem gerir upplifunina enn magnaðari.

Hver og einn getur farið yfir á sínum hraða en við munum tryggja að allir skili sér með öryggisbílum í skálunum á leiðinni og fararstjóra sem koma mishröðum hópum yfir (á 8 tímum, 12 tímum og 16 tímum).

Allir þeir sem eru í góðu Boot Camp formi og mæta reglulega (þ.m.t. á tveggja tíma útiæfingar) geta hæglega tæklað þetta ævintýri með okkur en við munum að sjálfsögðu halda góðar undirbúningsæfingar fyrir þá sem ætla sér með.

Verðið fyrir allan pakkann (rútuferð báðar leiðir, gisting í Þórsmörk, einhver næring á leiðinni og leiðsögn) verður u.þ.b. 15 þúsund krónur á mann.

Skráning er hafin á bootcamp@bootcamp.is en nú þegar eru 100 skráðir. Sendu okkur línu ef þú vilt slást með í för og við reynum að koma þér að!

Vertu með og gerðu sumarið einstaklega eftirminnilegt!

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050