Hvað þarf að hugsa um?

Heilbrigði og jafnvægi

Hið eina rétta mataræði sem hentar öllum hefur ekki enn verið uppgötvað. Það eru margar aðferðir til að ná árangri og þær virka ekki eins á alla. Það skiptir mestu máli að prófa sig áfram og finna hvað virkar fyrir þig hverju sinni en halda áfram að leita leiða til að mataræðið þitt sé einfalt, þægilegt og láti þér líða vel.

Það sem flest ólík mataræði eiga sameiginlegt sem tryggir árangur er að þau:

  • eru skilmerkileg þar sem þú fylgir ákveðnum grundvallarreglum
  • hreinsa til hjá þér hitaeiningar úr svokölluðu ruslfæði
  • gera þig meðvitaðari um hvað þú lætur ofan í þig, sama hvaða reglum þú fylgir.

Með því að taka út ruslmat sem veitir enga raunverulega næringu en er stútfullur af hitaeiningum og efnum sem líkaminn hefur ekkert að gera við, muntu finna mikinn mun á þér og því er það fyrsta skrefið sem við mælum með. Þú getur látið þér nægja að fara einu sinni í viku í bakarí, keypt þér skyndibita eða fengið þér annað sem þig langar í – restina af tímanum velur þú mat og drykk sem raunverulega hjálpar þér að ná árangri og líða betur – því hitt gerir það svo sannarlega ekki. Hippókrates sagði forðum: “Let food be thy medicine and medicine be thy food.”

Hversu mikið þarf ég að borða?

Hitaeiningar og magn

Þegar markmið þitt er að hreyfa við tölunni á vigtinni, þá þarftu að borða rétt magn hitaeininga. Ef þú ert ekki tilbúin/n til að vigta allan matinn sem þú borðar, þá er einfalt og gott ráð að vigta sig í byrjun og aftur einni viku síðar. Ef þú hefur haldið mataræðinu góðu og vigtin sýnir breytingu í rétta átt, þá ertu að borða nægilegt magn til að stýra vigtinni áfram að því markmiði sem þú hefur. Ef vigtin stendur í stað að viku liðinni þá þarftu að minnka/stækka skammtana þína svo hún færist í þá átt sem þú óskar eftir.

Mundu samt að talan á vigtinni skiptir ekki öllu máli þar sem hún gæti sýnt enga breytingu á sama tíma og samsetning líkamans breytist, t.d. ef þú breytir kílói af fitu í vöðva. Ef þú vilt fá nákvæmari mælingu hjá okkur sem sýnir þér hlutfall vöðva, fituprósentu, vökvamagn, grunnbrennslu þína o.fl. þá skaltu leita til þjálfaranna og þeir aðstoða þig með það.

Það góða við æfingarnar okkar er að þegar þú byrjar að hreyfa þig, þá ferðu að leita ósjálfrátt í meiri og betri næringu en áður. Árangurinn hjá okkur er líka engin tilviljun svo þó að þú spáir lítið í mataræðinu fyrst um sinn, þá muntu sjá árangur. En til lengri tíma litið verður þú einnig að hugsa um þennan hluta svo þú getir haldið áfram að bæta þig með því að hjálpa líkamanum að fá það sem hann þarf til að geta gert allt það sem þú biður hann um.

Hversu oft á ég að borða?

Fjöldi máltíða

Eins og áður hefur komið fram er ekkert eitt rétt mataræði fyrir alla og það fer eftir einstaklingnum hvaða fjöldi máltíða á dag virkar best hverju sinni. Áður fyrr var mælt með því við alla að fjölga máltíðum og borða minna í einu en núna höfum við séð að það þarf ekki endilega að vera eina lausnin fyrir alla.

Fyrir þá sem hafa það að markmiði að léttast, þá er gott að borða 2-3 máltíðir á dag og grípa í létt millimál þess á milli s.s. ávöxt eða nokkrar hnetur þegar þess þarf. Einnig er hægt að stilla máltíðirnar af á ákveðnu tímabili sólarhringsins í stað þess að borða frá því að vaknað er og þar til gengið er til rekkju að nýju. Staðgóður morgunverður, hádegisverður og léttur kvöldverður er því feykinóg til að halda nægri orku en á sama tíma að skafa af sér umframkíló eða viðhalda sér.

Þegar markmiðið er að þyngjast og styrkjast þarf inntaka hitaeininga að vera næg og það er auðveldara að ná inn meira magni af hitaeiningum með fleiri máltíðum yfir daginn. Þrjár stórar máltíðir á dag ásamt þremur léttari máltíðum ættu að duga til að hjálpa þér að viðhalda eða bæta við vöðvamassa.

Hvað á ég að borða?

Næringarefnin

Prótín

Prótín (prótein) er næringarefni sem er okkur lífsnauðsynlegt og fyrirfinnast í öllum frumum líkamans. Prótín eru samansett úr amínósýrum og eru byggingarefni fyrir vöxt og viðhald líkamans. Einnig nýtist prótín sem orkugjafi og fáum við 4 hitaeiningar úr hverju grammi af prótínum – sama magn og úr einu grammi af kolvetnum. Prótín fáum við að miklu leyti úr dýrum og afurðum þeirra (s.s. mjólkurvörum og eggjum), korni, baunum og hnetum en einnig innihalda plöntur eitthvað magn prótína.

Lesa meira

Kolvetni

Kolvetni er mikilvægur orkugjafi sem getur gert frábæra hluti fyrir orku þína og árangur á æfingum. Þá skiptir mestu máli að vanda val kolvetnanna, vera meðvitaður um magn þeirra og passa tímasetninguna á stærstu kolvetnamáltíðunum. Eitt gramm af kolvetnum inniheldur u.þ.b. 4 hitaeiningar, sama magn og eitt gramm af prótínum.

Lesa meira

Fita

Fita er þriðja næringarefnið ásamt kolvetnum og prótínum en jafnframt það orkumesta – í hverju grammi af fitu eru 9 hitaeiningar. Fita er orð sem nær yfir lífræn efnasambönd sem eiga það sameiginlegt að leysast illa upp í vatni. Fita er jafnframt orkugjafi, útvegar líkamanum fituleysanleg vítamín, veitir lífsnauðsynlegar fitusýrur, verndar líffæri gegn miklum hitasveiflum og síðast en ekki síst gefur fita bragð.

Lesa meira
Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050