Námskeið með Alex Viada

Helgina 24.-25.september fengum við góðan gest hingað heim þegar Alex Viada, þekktur styrktar- og úthaldsþjálfari frá Bandaríkjunum kom og hélt helgarnámskeið. Það var fullt á námskeiðið en 50 manns voru komin til að hlusta á útskýringar mannsins sem á yfir 300kg hnébeygju og undir 6:00 míluhlaup – á sama tíma! Auk þess að vera sterkur og fljótur vinnur hann mikið í úthaldi og hefur m.a. klárað nokkra járnkarla (3,8km sund – 180km hjól – 42,2km hlaup) og 100km ofurmaraþon.

Fyrir þá sem höfðu kannski einhverjar efasemdir þá kíkti hann við hjá okkur á föstudagskvöldinu, þá nýkominn til landsins þar sem Strength & Conditioning hópurinn okkar var í „PR & Pizza“ stuði. Hann smellti sér beint í réttstöðulyftu og var ekki í vandræðum með að rífa 300kg af gólfinu. Það féllu ófá met þetta kvöldið, hvort það hafi verið út af návist hans eða þeirri staðreynd að pizzur voru á leiðinni er ómögulegt að segja til um.

Við fengum Alex hingað til að miðla reynslu sinni á sínu sviði og kynna fyrir okkur grundvallaratriði Hybrid-þjálfunaraðferðarinnar sem hjálpar þér að bæta þig samtímis á mjög ólíkum sviðum. Það var ekki hægt að segja annað en að mannskapurinn hafi tekið mjög vel í námskeiðið enda setti kappinn það skemmtilega upp og kom fróðleiknum frá sér á virkilega áhugasaman hátt.

Fyrir áhugasama þá hvetjum við ykkur að kíkja á vefsíðu fyrirtækisins sem hann rekur en þar er hægt að finna meiri fróðleik um hann og Hybrid-æfingaaðferðina: https://www.completehumanperformance.com

Við stefnum á að fá hann aftur hingað á komandi ári með fleiri námskeið og með góðan gestaþjálfara með í för.

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050