Prótín

Prótín (prótein) er næringarefni sem er okkur lífsnauðsynlegt og fyrirfinnast í öllum frumum líkamans. Prótín eru samansett úr amínósýrum og eru byggingarefni fyrir vöxt og viðhald líkamans. Einnig nýtist prótín sem orkugjafi og fáum við 4 hitaeiningar úr hverju grammi af prótínum – sama magn og úr einu grammi af kolvetnum. Prótín fáum við að miklu leyti úr dýrum og afurðum þeirra (s.s. mjólkurvörum og eggjum), korni, baunum og hnetum en einnig innihalda plöntur eitthvað magn prótína.

 


 

Hlutverk prótína

Uppbygging prótína er töluvert flóknari en hjá kolvetnum og fitu og nýtast þau líkamanum á ólíkan hátt eftir sinni einstöku samsetningu amínósýra. Ákveðinn matur getur innihaldið nóg af tilteknum amínósýrum en vantað aðrar á móti og því skiptir máli að borða fjölbreytt svo líkaminn fái allar þær sem hann þarf fyrir þau ólíku hlutverk sem amínósýrurnar gegna. Prótínin eru algengustu sameindir líkamans á eftir vatni og eru notuð fyrir uppbyggingu og endurnýjun fruma líkamans, sérstaklega í vöðvum en hefur einnig áhrif á framleiðslu hormóna, mótefna ásamt því að vera burðarefni til fruma.


 

Prótíngjafar

Nánast öll fæða inniheldur eitthvað af prótínum fyrir utan hreina fitu og hreinan sykur. Afurðir úr dýraríkinu s.s. rautt kjöt, fiskur og fuglakjöt er almennt prótínríkast. Aðrir góðir prótíngjafar eru egg, mjólkurvörur, baunir og hnetur. Prótín úr þessum afurðum innihalda allar nauðsynlegu amínósýrurnar sem líkamar okkar þurfa á að halda.

Prótín finnast einnig í grænmeti, ávöxtum og korni en í mismiklum mæli. Ef borðað er nægt magn af honum eða nógu fjölbreytt – fáum við einnig allar nauðsynlegar amínósýrur úr þeirri fæðu.

Prótín eru einnig fáanleg í formi fæðubótarefna en eru yfirleitt óþörf sé mataræðið nægilega fjölbreytt. Óunnin matvæli innihalda allt það sem líkaminn þarf sé þeirra neytt í nægilegu magni og eru ákjósanlegri kostur heldur en verksmiðjuframleitt prótínduft. Ástæða vinsælda þeirra er þægilegt aðgengi, verð og bragð þar sem auðveldara er að skella í sig prótíndrykk eftir æfingu heldur en að borða vel samsetta máltíð af kjúkling, salati og hrísgrjónum.


 

Magn prótína

Manneskja getur komist upp með að borða eins lítið og 0,8gr af prótíni fyrir hvert líkamskíló en almennt er ráðlagt að innbyrða sem nemur 1-1,5gr af prótínum fyrir hvert líkamskíló. Þeir sem stunda erfiðisvinnu eða mikla áreynslu við æfinga geta fengið sér upp í allt að 2-2,5gr fyrir hvert líkamskíló að staðaldri. Hvert magnið skuli vera getur verið háð mörgum þáttum og ekki eru allir sammála um hverjar ráðleggingarnar eigi að vera. Einnig er hægt að miða út frá hlutfalli af heildarinntöku hitaeininga, þar sem prótín veitir 20-25% orkunnar.

 

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050