Rákvöðvarof

rhabdoHvað er rákvöðvarof?

Rákvöðvarof er samsafn einkenna sem einstaklingur fær sem hefur hlotið skaða á vöðvum með þeim afleiðingum að þeir brotna niður. Ýmis efni innan úr vöðvafrumunum leka þá út í blóðrásina sem geta valdið eitrunaráhrifum annars staðar í líkamanum, sérstaklega í nýrum.

 

Hvað veldur rákvöðvarofi?

Margir orsakavaldar geta leitt til rákvöðvarofs, s.s. alkóhól og eiturlyf, slæmar sýkingar og beinir áverkar auk þess sem líkamleg ofreynsla við æfingar getur valdið þessu.

 

Hvers vegna fær fólk rákvöðvarof eftir æfingar?

Ekki hafa fundist neinar klárar skýringar á þessu en eftirfarandi atriði fela í sér aukna áhættu:

• Vökvaskortur fyrir æfingar

• þjálfun einstaklings er ekki í samræmi við erfiðleikastig æfingarinnar, t.d. óþjálfaður einstaklingur sem fer í mjög stífar æfingar. Eins getur þjálfaður einstaklingur verið í aukinni áhættu ef hann hefur ekki verið að æfa reglulega í einhvern tíma og byrjar af fullum krafti eða hann eykur skyndilega æfingaálagið langt út fyrir það sem hann er vanur.

• Stífar æfingar í miklum hita og raka

• Nýleg veikindi

• Sum lyf geta aukið áhættuna eins og t.d. magnyl, þvagræsilyf, blóðfitulækkandi lyf ofl.

 

Hver eru helstu einkenni?

• Mikill stífleiki, bólga, eymsli og verkir í vöðvum umfram það sem gæti talist eðlilegar harðsperrur

• Minnkaður kraftur í vöðvum

• Dökkt/brúnleitt þvag, eða viðkomandi hefur lítil sem engin þvaglát

Einnig getur viðkomandi fundið fyrir almennum slappleika og liðið eins og hann sé með flensu auk þess sem ógleði og uppköst, kviðverkir, hraður hjartsláttur, hiti og jafnvel ruglástand geta fylgt í kjölfarið.

Einkenni byrja yfirleitt innan nokkurra klukkustunda eftir æfingu og ná hámarki á næstu 2 dögum.

 

Hverjar geta afleiðingarnar veri?

Einkum eru það tvennt sem læknar hafa áhyggjur af hjá sjúklingum með rákvöðvarof:

• Nýrnabilun vegna eiturefna sem losna út í blóðið

• Að bólgnir vöðvar loki fyrir æðar og stöðvi blóðflæði út í útlimi (sk “compartment syndrome”)

 

Hva› er hægt að gera til að fyrirbyggja rákvöðvarof við æfingar?

Ekkert 100% öruggt ráð er til að en gott er að miða við eftirfarandi atriði:

• Að taka sér góðan tíma til að auka álagið á æfingunum. Ef þú hefur ekki æft reglulega, byrjaðu á léttari æfingum í nokkur skipti og sjáðu hvernig gengur í stað þess að fara “all-in” frá fyrsta degi.

• Drekktu vel 2-3 klukkustundum fyrir æfingu og aftur hálftíma fyrir æfingu. Gott er að miða við ca 0,5L af vatni í hvort skipti. Ef æfingin tekur mikið lengri tíma en klukkustund þarftu að huga að því að fá í þig vökva, sölt og kolvetni á meðan æfingu stendur. Drekktu einnig vel og nærðu þig eftir æfingar.

• Forðastu að æfa í miklum hita og raka

• Ef þú tekur einhver lyf að staðaldri eða ert með undirliggjandi langvinnt heilsufarsvandamál og ert að byrja að hreyfa þig, ráðfærðu þig við lækninn þinn áður en þú byrjar og láttu einnig þjálfarann þinn vita af því.

Fyrst og síðast, lærðu að flekkja líkamann þinn. Ef þú ert ekki vel upplagður fyrir æfinguna eða þú upplifir mikla vanlíðan á æfingunni, taktu þér þá hvíld og bíddu með að æfa þar til að þú ert tilbúinn til þess.

Ef þú upplifir mikla verki og máttleysi í vöðvum eftir æfingu og þvagið þitt verður dökkt ættirðu að hafa samband við lækni.

Heimilisfang
Sporthúsið Dalsmára 9, 200 Kópavogi
Sími
564 4050