Hver erum við?
Við erum Boot Camp!
Vertu hluti af okkar frábæra hóp!
Boot Camp er samansafn af einstaklingum sem eiga það sameiginlegt að vilja ögra sér á ýmsan hátt og tilheyra öflugum hópi. Hjá okkur er fólk úr öllum stigum þjóðfélagsins en á æfingum erum við sem ein heild og leggjum okkur sérstaklega fram fyrir æfingafélaga okkar.
Þegar þú prófar að æfa undir handleiðslu góðra þjálfara og með einstaklingum sem stefna í sömu átt og þú, þá verður ekki aftur snúið. Það er frábær tilhugsun að geta mætt á æfingu, þurft ekki að hafa neinar áhyggjur af því hvað þú þarft að gera heldur eingöngu framkvæma það og vita það að tíma þínum er vel varið. Hjá okkur leggja allir sig fram á æfingum því það er leiðin að árangri og í svona hvetjandi umhverfi er ekki annað hægt en að gefa allt sitt.
Við skorum á þig að prufa að tilheyra hópnum okkar í smá stund – þannig finnur þú hvort þú eigir heima hjá okkur!
Hvernig er
Saga Boot Camp
Boot Camp byrjaði haustið 2004 í húsi Hnefaleikafélags Reykjavíkur í Faxafeni. Það voru 20 hugrakkir einstaklingar sem skráðu sig á fyrsta námskeiðið en það leið ekki á löngu þar til hróður þess barst út og fleiri óskuðu eftir að prófa. Strax í ársbyrjun 2005 var fjöldi meðlima búinn að tvöfaldast og tóku flestir 6 eða 12 vikna námskeið. Með tímanum fór fólk að óska eftir að kaupa sér meira en stök námskeið og hófum við því að selja árskort – Boot Camp var komið til að vera!
Húsnæðið var fljótt sprungið með yfir 200 meðlimum og þrátt fyrir að við bættum við fleiri tímum í hádeginu og síðdegis hófum við leit að húsnæði þar sem færi betur um okkur. Það húsnæði fannst við Suðurlandsbrautina þar sem Gym80 hafði verið til húsa áður og æfði m.a. Jón Páll Sigmarsson í þeirri stöð. Flutningur þangað fór fram með handafli Boot Campara sem höfðu einnig aðstoðað við að standsetja húsnæðið. Fyrsta sérhæfða Boot Camp stöðin opnaði í febrúar 2007.
Á Suðurlandsbrautinni þróaðist æfingakerfið mikið, við bættum við fleiri námskeiðum og byggðum upp sterkan kjarna af frábærum meðlimum sem sköpuðu andrúmsloftið í stöðinni. Húsnæðið gerði okkur kleift að fjölga meðlimum upp í 800 manns og því var hugsað til að taka annað skref í að bæta þjónustuna og aðstöðuna enn frekar fyrir meðlimina. Eftir margra mánaða baráttu við borgaryfirvöld fékkst loksins samþykki fyrir því að flytja starfsemina á Rafstöðvarveginn í Elliðaárdalnum. Það var gert í júní 2012, öðru sinni með aðstoð okkar frábæra meðlima. Stöðin var geysistór, með mörgum sölum og var að hluta til nýtt undir CrossFit æfingar undir merkjum CrossFit Stöðvarinnar. Einnig byrjuðum við með Strength & Conditioning námskeiðin sem slógu fljótt í gegn. Heildarfjöldi meðlima óx í 1.200 og var starfsemin þar í þrjú ár, eða fram til júlí 2015 en þá fluttist Boot Camp yfir í Sporthúsið Kópavogi og CrossFit Stöðin sameinaðist CrossFit Sport sem er einnig innan veggja Sporthússins.
Í dag er stemningin á æfingum betri en nokkru sinni fyrr, fjöldi meðlima er álíka og á Suðurlandsbrautinni og aðstaðan í Kópavoginum betri en við höfum nokkru sinni fyrr kynnst. Eftir 12 ára reynslu teljum við að gæði námskeiðanna hafi aldrei verið betri, hópurinn er eins breiður og fjölbreyttur og hugsast getur, þjálfarateymið samheldið og reynslumikið svo fátt eitt mætti nefna. Við erum stolt af því sem við bjóðum upp á og leggjum okkur fram á hverjum degi að skapa skemmtilega upplifun fyrir meðlimi okkar, ögra þeim á jákvæðan hátt og hjálpa þeim að byggja sig upp andlega og líkamlega.